Föstudagur, 18.1.2008
Takk fyrir og bless á RÚV
Jæja. Fyrsti leikurinn á EM var eins og dæmigert Júróvísjónpartý.
Væntingar, spenna, gleði og síðan óendanleg vonbrigði.
Þessi fertugi markvörður lét skjóta í sig rúmlega 20 sinnum.
Hef aldrei skilið hvað það er sem fær menn til þess að velja það að fara í mark í handbolta. Að fá boltann í sig eftir þrumskot af stuttu færi? Það er vont.
Tomas Svensson verður fertugur á þessu ári líkt og síðuhaldari. Hann virðist vera í betra formi en ég.
Kannski að maður taki sig á og endi ferilinn með kombakki hjá 2. deildarliði ÍA.
Búningurinn hans Anthony Sullen hlýtur að vera til eða þá búningurinn á gaurnum sem var í ÍA þegar liðið fór upp í úrvalsdeild 1993. Stewart að mig minnir. Hann var með farangursgeymslu sem tók pláss inn í teig. Rassinn á honum var svo stór að hann hafði áhrif á flóð og fjöru.
Verð að hrósa RÚV fyrir góða eftirfylgni eftir leikinn gegn Svíum í gær. Eða þannig.
"Við þökkum fyrir okkur, verið þið sæl."
Óskiljanlegt að vera ekki með spekinginga í spjalli eftir leikinn eins og gert var fyrir leikinn. Vissulega tafðist upphafið á leiknum um einhverjar mínútur en kóm ón.
Guðmundur Guðmundsson kom frekar illa út í settinu hjá RÚV fyrir leikinn. Þetta minnti mig á hundleiðinlega spurningaþáttinn, ertu skarpari en skólakrakki. Það vantaði svona upphækkun fyrir Guðmund.
Guðmundur horfði upp til þeirra Baldvins og Júlíusar þar sem þeir stóðu við borð. Hefði kannski gengið ef Adolf Ingi og Geir hefðu rætt við Guðmund.
En Júlíus var eins og Yao Ming þarna við hliðina á Guðmundi.
Athugasemdir
Sæll Seth,
hjartanlega er ég sammála þér, bæði hvað varðar ótrúleg endalok á útsendingunni ... það var einmitt þarna sem maður vildi fá einhverjar skýringar á þessari hörmung. Hvert var mat Guðmundar og Júlíusar? Þeir tjáðu sig aðeins í hálfleik og hljómuðu ekki ósvipað og greiningardeildir bankanna í kringum áramót ... „þetta getur ekki versnað, botninum er náð“ Annað kom á daginn.
Síðan er það stærðarmunurinn á þeim félögum, mikið óskaplega er Guðmundur lítill, hann virkaði eins og dvergur þarna í settinu. Mér varð einmitt hugsað til þess hvort þeir hefðu ekki átt upphækkun á kappann en sá svo síðar að það hefði verið heldur hallærislegt þar sem það sást greinilega hvernig þeir stóðu í fæturna. En útsendingastjórarnir hefðu nú líka getað sett Júlíus innar í settið, í plássið hans Guðmundar, og reynt með þeim hætti að draga úr þessum gríðarlega hæðarmun á þeim félögum.
Varðandi leikinn, maður á aldrei að spá Íslandi öðru en sigri, en væntingar þeirra sem standa að liðinu fyrir leikinn voru slíkar að ég spáði tveggja marka tapi og hafði því miður að hluta til rétt fyrir mér. Hefði samt kosið að vera nær réttum úrslitum en raunin varð.
En hvað finnst þér um að hafa framkvæmdastjóra HSÍ alltaf á bekknum í leikjunum? Ég skil ekki tilganginn í því. Er Einar að hita upp markmennina, ég sé hann aldrei gera neitt á leikjum, hann sýnir jafnvel engin viðbrögð hvort sem við erum yfir eða undir, skorum, verjum eða fáum á okkur mark.
Ingibjörg Hinriksdóttir, 18.1.2008 kl. 23:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.