Klístraður handbolti og faxtæki

Þá er klístraður handbolti farinn í gang.

N1-deildin í kvenna og karlaflokki. Konurnar fóru af stað í kvöld. 

Margir spenntir fyrir handboltanum en við á íþróttadeild Morgunblaðsins þurfum nú að fara að leita aftur að faxtækinu okkar. Ég var á vaktinni í kvöld og þurfti eiginlega að leita og tékka hvort við værum með svona tæki?

HSÍ er eina sérsambandið sem er ekki með úrslit og leikskýrslur í rafrænu formi. Ótrúlegt að staðan sé svona árið 2007. Ég held reyndar að þeir ætli sér að skutla HSÍ inn á 21. öldina fljótlega..... (e.s þeir voru ekki lengi að því. Tvær skýrslur komnar á Excel-skjali. Tíðindi úr Laugardalnum og vel gert HSÍ:)

Topp gaur á Seltjarnarnesinu faxaði samviskusamlega leikskýrsluna úr leik Gróttu og HK í kvöld. Í fjórum eintökum. Alveg pottþétt. Hann hefur kannski ekki kunnað á græjuna enda fáir sem nota faxið í dag.

Ég held samt að hann hafi ekki staðið yfir tækinu og ekki skilið afhverju helv. skýrslan kom alltaf aftur og aftur út úr tækinu í stað þess að fara upp á Mogga. Við fengum allavega fjórar skýrslur en ekkert fax kom úr Fram-heimilinu og Vodafonehöllinni Wink

Fyrir þá sem eru búnir að gleyma þá eru faxtæki svona...

fax1130l


Græn slumma í beinni útsendingu

Ég held að önnur eins slumma hafi ekki verið hrist úr koki áður í beinni útsendingu í sjónvarpi áður. 1500

Ég hélt um tíma að það myndi fækka um einn í Samtökum íþróttafréttamanna um miðjan fyrri hálfleik í leik Vals og KR í Landsbankadeild kvenna í dag.

Hrafnkell Kristjánsson á RÚV átti slummuna en hann virtist vera að kafna og hóstaði eins og stórreykingamaður í nokkrar sekúndur. Hann virtist hafa jafnað sig en byrjaði síðan aftur. Stórkostlegt sjónvarpsefni en sem betur fer slasaðist Hrafnkell ekki illa.


20 millj. reyndu að ná í miða á sama tíma

Ég sá frétt um þetta á Sky í gær. Þar sagði fréttaþulurinn að 18.000 miðar væru í boði. Og kl. 1:30 í nótt voru 20 millj. IP-tölur að reyna að komast inn á sama tíma til þess að kaupa þessa miða. Ég var ekki einn af þeim., hef aldrei kveikt á Zeppelin...en eflaust verða þetta góðír tónleikar. 
mbl.is Led Zeppelin kemur fram á tónleikum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegt

Þetta er ótrúlegt. Ég er einn af fjölmörgum sem fer þessa leið nánast daglega í og úr vinnu. Aurskriða? í Kollafirði?. Aldrei átti maður von á þessu. 

Hvassviðri hefur verið einkenni Kollafjarðarins en það leynast greinilega hættur allstaðar. Sem betur voru fáir sem slösuðust í rútunni en konurnar ætluðu greinilega ekki að láta neitt stöðva ferð þeirra til útlanda.

Rútur geta verið skemmtilegar en einnig koma upp atvik þar sem bílstjórar missa stjórn á ástandinu. Ég var fyrir mörgum árum í skólaferðalagi með unglinga úr Borgarnesi á leið til Reykjavíkur, og í Hvalfirði var gríðarleg hálka. Skammt frá Ferstiklu var mikið fjör í bílnum en kennaraliðið og þar á meðal ég hafði séð það miklu verra. Ástandið var því þolanlegt  -enn sem komið er. Bílstjórinn var eitthvað trekktur og hann snarnegldi niður á miðjum veginum og rauk sjálfur aftur í bílinn áður en hann stöðvaði. -til þess að lesa krökkunum pistilinn. 

Rútan rann til hliðar á veginum í hálkunni og var í þann veginn að fara útaf þegar hann áttaði sig á mistökunum.

Ástandið í rútunni var eldfimt í kjölfarið og bílstjórinn fékk "hárþurrku" meðferð frá mér þrátt fyrir að aldursmunurinn væri mikill á okkur.

Ég gekk aftur í rútuna og ræddi við unglingana.

Allir spakir og við héldum ferð okkar áfram. Þá sagði einn sprækur Borgnesingur.

"Hei, Elvar, ég veit núna hvar neyðarhemillinn er á rútunni,".

Góður.

Það var skipt um bílstjóra í Reykjavík. Hann óskaði sjálfur eftir inná skiptingu  - líklega meiddur.  


mbl.is Þjóðvegurinn í Kollafirði ruddur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ég ætla sko ekki að fara í Liverpúl í leikskólann,"

Ég vona að við verðum í "Höllinni" eða á grasinu á æfingu í dag pabbi," sagði 5 ára pjakkurinn í gærmorgun en hann sparkar í bolta með 8. fl. líkt og fleiri krakkar í fótboltabænum Akranesi.

"Það er miklu betra en að vera í íþróttahúsinu  - þar get ég ekki tæklað," bætti hann við. Svona er að vera yngstur og eiga fyrirmyndir sem tækla manna alla daga þegar færi gefst. 

Í morgun láku tárin niður kinnar mínar þegar sá stutti var að klæða sig úr Liverpool -búningnum sem hann átti að nota í íþróttatímanum í leikskólanum. Gleðitár altso. 

"Ég ætla sko ekki að fara í Liverpúl í leikskólann," sagði hann. "Nú afhverju," svaraði ég enda góð tíðindi fyrir okkur sem hafa staðið í Tottenham trúboði undanfarin ár með misjöfnum árangri, (33% árangur).

"Það stendur Axel aftan á búningnum. Ég ætla sko ekki að fara í þessum búning. Ég vil fá Ísak aftan á búninginn," sagði Ísak. Ég vissi að tvær barnatennur eru lausar í drengnum en ég vissi ekki að hann kynni að lesa. Það er greinilega tími til kominn að endurskoða þetta vaktaplan á íþróttadeild Morgunblaðsins. Menn eru aldrei heima hjá sér!


Tjáningarfrelsið er dásamlegt

Svona gera menn ekki og miðað við það sem sést á myndbandsupptöku frá þessu atviki á sá stóri von á löngu banni.

Að öðru.

Eins og einhverjir hafa frétt þá hafa félagar í Samtökum Íþróttafréttamanna látið í ljós óánægju með nýja útiaðstöðu fyrir fréttamenn á Laugardalsvelli. Það mál er enn í vinnslu. Eflaust hafa einhverjir verið ósáttir við að félagsmenn SÍ hafa notað bloggsíður til þess að skrifa um ástandið.

Tjáningarfrelsið er samt sem áður dásamlegt. Kannski fæ ég þriggja leikja bann og 100.000 kr. sekt eftir þessa færslu?

Ég ætla að hrósa KSÍ fyrir að hafa gert sitt besta á leiknum í kvöld gegn N-Írum. Gæslan var í lagi, borðin voru þurr og tuskur til staðar fyrir þá sem vildu. Meira að segja boðið upp á regnfatnað fyrir gesti og gangandi. Nokkir pennar frá N-Írlandi fóru glaðir af vellinum í Landsbankarvindjökkum og Errea regnbuxum.

Veðrið var þokkalegt án þess að ég viti hvort KSÍ hafi samið sérstaklega um það. Ég held að það hefði allt orðið vitlaust aftur ef regnið hefði látið á sér kræla líkt og á Spánarleiknum. Flestir N-Íranna voru með tölvur í gangi en íslenska pressan sem var tölvutengd fékk húsaskjól að þessu sinni.

Fjöltengin voru enn laus út um allt.. en það stendur víst til bóta. 

Samt sem áður er staðsetning á þessari aðstöðu með þeim hætti að vatn og vatnsveður á eftir að verða aðalvandamálið.

Ég hef víða setið utandyra á vinnuferðum mínum undanfarin 7 ár. Á Þúsaldarleikvanginn í Cardiff, á AOL-leikvanginn í Hamborg, á Råsunda í Stokkhólmi, á Ullevål í Osló og fleiri staði mætti nefna.

Allir þessir vellir eru með útiaðstöðu fyrir blaðamenn.

En stóri munurinn er að allir vellirnir eru með þessa aðstöðu alveg uppi í rjáfri á stúkunum og litlar líkur eru á því að menn fái vatnsveður á tölvurnar og annað sem þessu fylgir.

Blaðamannaaðstaðan á Laugardalsvelli er mikið neðar en var áður en vellinum var breytt.

Í "denn" sátu þeir sem þurftu að vera úti á Laugardalsvelli alveg uppi við rjáfur og vatn og vatnsveður var aldrei vandamál. Þetta er vandamálið í hnotskurn. Og á þeim tíma var ekki búið að gera alþjóðasamning sem varð til þess að íslenska pressan verður úti á Laugardalsvelli og sú erlenda inni. Þegar gamla stúkan var til þá var þessu öfugt farið, heimamenn inni og erlendir gestir úti. Mér fannst það fín hefð.  

Samt er hundfúlt að mæta í vinnusvæði með tölvu og geta átt von á því að skemma vélina og geta ekki komið fréttum af gangi mála á vefinn. Þarna liggur hundurinn grafinn. Þeir sem áttu von á því að seth myndi hætta að blogga geta gleymt því. Fjörið er rétt að byrja.


mbl.is Scolari sló leikmann Serbíu í andlitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. september 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband