Föstudagur, 16.5.2008
Í gammósíum á Fjölnisvöll
Kvenkynsnafnorðið gammósíur hefur þrenns konar merkingu:
1. háar skóhlífar (úr gúmmí)
2. legghlífar
3. síðar, þröngar prjóna- eða teygjubuxur
Hann hefur líklega átt við nr. 3. Ég var ekki í slíkum fatnaði. Gerir það næst þegar ég fer á Fjölnisvöllinn. Men in thigts.
Ég er rétt núna að ná hita í fingurna eftir að hafa norpað úti á svölum með fartölvuna fyrir framan mig á Fjölnisvellinum. Loftræstingin var fín í fjölmiðlaaðstöðunni sem er náttúruleg og umhverfisvæn. Eins og á Þjóðarleikvanginum". Þú situr einfaldlega úti.
Það var líklega ekki nema 6 stiga hiti. Og þegar menn sitja á sínum f...rassi í 90 mínútur þá er aðeins eitt sem gerist við slíkar aðstæður. Þér verður kalt. 2 lítrar af kaffi héldu mestu skjálftaköstunum niðri en ég komst að því að Dell tölvur þola alveg helling af sultardropum, sem láku í gríð og erg niður á lyklaborðið. Helvíti hressandi..
Ég gleymdi stóru úlpunni sem fjölmiðlamenn fengu á dögunum frá Landsbankanum. Ég er reyndar svo stór þegar ég hef klætt mig í þá úlpu að ég þarf að fara í umhverfismat áður en ég get mætt á leik í því tjaldi".
Leyfiskerfi KSÍ er líklega með Fjölni á undanþágu í einhvern tíma. Það verður eflaust ekki slegist um að fara á leiki þarna í sumar í blaðamannastéttinni ef aðstöðunni verður ekki lokað með gleri. Þetta slapp fyrir horn í gær en ef það rignir hressilega....
Fjölnismenn gerðu allt til þess að redda málum. Rafmagn, fjöltengi, netsamband, stóll, borð og leikskýrsla. Grunnþarfir fjölmiðlamanna. Og þetta skilaði sér allt fyrir rest. Netið var reyndar úti og inni. Því verður kippt í liðinn.
Kaffið er reyndar lífsnauðsynlegt. Miðað við meðalþyngd íþróttafréttamannastéttarinnar eru kruðerí og rækjusamlokur óþarfi. Slíkt kransæðakítti verður aðeins til þess að flýta fyrir alvarlegri kransæðastíflu hjá flestum..(HBG...)
Íþróttir | Breytt 17.5.2008 kl. 00:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)