Áfengi í boði fyrir útvalda - nema í golfinu

Áfengi er ekki aðgengilegt fyrir hinn almenna áhorfanda sem fer á lands - eða deildarleik hér á Íslandi. Samt sem áður er áfengi í boði fyrir útvalinn hóp á landsleikjum í flestum íþróttagreinum. Sem eru þá kallaðir heiðursgestir.

Ég hef ekkert á móti því að þeir geti fengi sér bjór, rautt eða hvítt vín eða hvað sem er í boði í VIPPINU.

Það sem ég undra mig á er að íþróttahreyfingin komist upp með að mismuna fólki með þessum hætti. KSÍ, HSÍ og KKÍ eru öll með sömu reglurnar og hefðirnar.

Það stakk mig að sjá mann sem var á leið inn á Laugardalsvöll s.l. miðvikudag með tvö börn með í för. Hann var stöðvaður og öryggisvörður grandskoðaði í bakpoka hans áður en hann fór inn. "Að hverju ertu að leita," spurði maðurinn. "Áfengi," svaraði öryggisvörðurinn. "Við erum bara með nesti og kakó á brúsa," sagði maðurinn og var hálfhissa á þessu umstangi.

Þetta er í raun ótrúlegt ástand.

Hversvegna er Íslendingum ekki treyst til þess að umgangast bjór og léttvín á íþróttaleikjum?

Þeim er treyst til þess í leikhúsum, á rokktónleikum, en ekki á íþróttaleikjum. Það er alveg ljóst að stór hluti þeirra sem fer á landsleik í fótbolta mætir til leiks í þannig ástandi að það er  "kaupstaðarlykt" af mönnum. Og þar sem aðgengi að bjór er ekkert þá drekka menn ótæpilega áður en þeir fara inn á völlinn. Hafið þið séð "líkin" sem eru fyrir utan Laugardalsvöllinn áður en landsleikir hefjast. Leyndarmálið er nú ekki meira en það að menn sitja í hópum rétt utan við völlinn og drekka bjór. Er það betra en að selja þessa vöru inni á vellinum og hafa ástandið eðlilegra?

ÍSÍ þarf að mínu mati að fara yfir þessi "heiðursgesta" og VIPP-menningu í hreyfingunni. Ég skil ekki afhverju almenningur lætur þetta yfir sig ganga?

Aðeins fáir og útvaldir einstaklingar mega drekka á leikjum en aðrir ekki?

Hvað rugl er það?

Það er aðeins ein íþróttagrein sem sker sig úr á þessu sviði þar sem allir eru jafnir. Golfið. Þar er kaldur á krana, kaldur í dós, kaldur í flösku í flestum ef ekki öllum golfskálum landsins. Hvítt og rautt fyrir þá sem það vilja. Og það er enginn að kvarta yfir því enda enginn ástæða til. Allir helsáttir. Og það sem meira er. Það þurfa allir að borga fyrir þann kalda.  

Skál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband