Áhorfendatölur í hand -og körfubolta

Umræðan um stöðu handboltans er mikil þessa dagana. Sérstaklega þar sem að úrslitakeppnin í körfunni á sviðið og þar baða menn sig í sviðsljósinu. Í Keflavík í kvöld var stappfullt út úr dyrum, líkt og í hinum leikjunum í undanúrslitunum. 

Lokaumferðir N1-deildar karla virðast varla vekja áhuga leikmanna, hvað þá áhorfenda. Geisp.

Það er gott að handboltahreyfingin taki púlsinn á stöðu íþróttarinnar. Á vefnum handbolti.is eru m.a. Hlynur Sigmarsson, Harpa Melsted og Hjálmar Vilhjálmsson að lýsa skoðunum sínum á stöðunni í dag. Það er margt sem hefur farið úrskeiðis hjá handboltahreyfingunni á undanförnum árum og við tökum þær pælingar í öðrum pistli síðar. numbers

Hjálmar bendir á þá staðreynd að engar tölur um áhorfendasókn liggi fyrir frá undanförnum árum og áratugum. Íslenskir prentmiðlar hafa í gegnum tíðina birt mjög óáreiðanlegar tölur um fjölda áhorfenda á handbolta - og körfuboltaleikjum.

Ég hef tekið sjálfur þátt í því að slumpa á þetta - og stundum hefur maður ekki slumpað. Bara talið þær fáu hræður sem eru á staðnum. Og þá á ég ekki við starfsmenn og leikmenn.

Það er gott að Hjálmar er búinn að fatta þetta að allar samanburðartölur eru mikilvægar til þess að setja sér markmið og gera betur en í fyrra. KSÍ hefur á undanförnum árum hamrað á 100.000 áhorfendatölunni. Það tókst og núna setja þeir sér ný markmið.

Þessa grein skrifaði ég í Moggann 18. desember árið 2002. Það hefur lítið breyst frá þeim tíma. 

Slumpur og slatti"

"ÉG er ánægður með hve margir hafa mætt á leikina í efstu deild karla það sem af er vetri. Við sjáum það á áhorfendatölunum í dagblöðunum að það er veruleg aukning frá því sem var á síðustu leiktíð," sagði maður við mig á dögunum, sem tengist körfuknattleikshreyfingunni á Íslandi. "Já, er það," svaraði ég stuttur í spuna enda hefur undirritaður starfað við að skrifa um íþróttir í tæp þrjú ár, án þess að upplifa það að forsvarsmenn íþróttafélaga gefi upp með formlegum hætti hve margir áhorfendur hafa mætt á leiki í handknattleik og körfuknattleik

Vísindin hvað þessa hluti varðar eru hvorki stórkostleg né ábyggileg og eru í sama anda og meistarakokkar í sjónvarpi nota í gríða og erg. "Slumpum" ögn af rauðvíni í sósuna og "slatta" af rjóma.

Það eru aðeins tveir fjölmiðlar sem gefa upp áhorfendatölur í umfjöllun sinni um kappleiki, Morgunblaðið og DV. "Hvað eigum við að giska á að það séu margir mættir í kofann," er spurningin sem blaðamennirnir velta fyrir sér stutta stund og síðan er samið um að "slumpa" á sanngjarna tölu. Ég játa á mig glæpinn en ef blaðamenn myndu ekki "slumpa" á einhverja tölu kæmu engar upplýsingar fram um þennan þátt kappleiksins.

Öðru máli gegnir um knattspyrnuna hér á landi í efstu deild karla. Þar á bæ er mönnum annt um áhorfendatölurnar. Haldið er utan um upplýsingarnar ár frá ári og hægt er að gera samanburð. Eftir hvern leik í efstu deild karla er hægt að ganga að þessum upplýsingum vísum og þar er gefin upp nákvæm tala. Hvert einasta höfuð er talið með, en ekki er gerður greinarmunur á stóru eða smáu höfði!

Það er tímabært að forsvarsmenn íþróttafélaga í hand- og körfuknattleik gefi þessum þætti meiri gaum, að talið verði rétt á íþróttakappleiki, því þær aðferðir sem notaðar eru í dag eru aðeins tal tveggja manna sem koma sér saman um "rétta" tölu.

Að vísu hefur undirritaður farið á kappleiki í báðum greinunum þar sem hann gat auðveldlega talið "alla" þá sem mættir voru á leikinn.

Á einum leik um sl. helgi gerðist það rétt fyrir leikinn, er einn áhorfandi gekk í salinn, að það glumdi um tómt húsið er strákur einn sagði upphátt: "Þá eru komnir tuttugu og fjórir."

Oftar en ekki þarf ekki telja fleiri en 50 áhorfendur á þessum leikjum sem um er að ræða. Að mínu mati hefur leikjum fjölgað þar sem færri en 100 áhorfendur eru á leik og er sú þróun umhugsunarefni fyrir handknattleiks- og körfuknattleikssambandið, en það er önnur saga.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband